28 Nóvember 2017 18:16
Átak lögregluliðanna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, í samstarfi við Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun og embætti ríkisskattstjóra, gegn ólöglegri atvinnustarfsemi hefur leitt í ljós að víða er pottur brotinn, en haldið hefur verið úti sérstöku eftirliti í þessum málaflokki í haust og vetur. Á u.þ.b sjö vikna tímabili hafa t.d. mál nærri 200 fyrirtækja, og um 900 starfsmanna þeim tengdum, verið tekin til skoðunar í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og því samhliða gefnar út 52 kærur, en aðallega er um að ræða brot á lögum um atvinnuleyfi. Í fyrrnefndum aðgerðum hafa 20 fyrirtæki og 41 einstaklingur, þ.e. 37 karlar og 4 konur, verið kærð fyrir samtals 52 brot eins og áður sagði.
Í um helmingi tilvika hafa heimsóknir Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu beinst að veitinga- og skemmtistöðum í umdæminu. Nálægt fimmtungur eftirlitsins hefur snúið að hótelum og heimsóknir lögreglunnar á byggingarsvæði eru ámóta margar. Einnig hefur verið farið í margar verslanir sömu erinda. Þeir sem lögreglan hefur haft tal af, eða afskipti, eru langflestir á aldrinum 20-39 ára. Við eftirlit lögreglu er einnig kannað hvort dvalarleyfi hjá viðkomandi sé fyrir hendi og að staðið sé við lögbundnar skatt- og gjaldgreiðslur eftir því sem við á.
Það er samdóma álit allra þeirra sem að verkefninu hafa komið að eftirlit sem þetta sé mikilvægt og því er viðbúið að átak gegn ólöglegri atvinnustarfsemi verði framhaldið.