7 Desember 2009 12:00

Um eitt þúsund ökumenn voru stöðvaðir á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu frá fimmtudegi til laugardags í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Ökumenn tóku þessum afskiptum almennt mjög vel en öflug sveit lögreglumanna var á vettvangi og því gekk eftirlitið að mestu snuðrulaust fyrir sig. Átta ökumenn reyndust ölvaðir við stýrið og eiga þeir ökuleyfissviptingu yfir höfði sér. Ellefu til viðbótar var gert að hætta akstri sökum þess að þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum. Lögreglan stöðvaði einnig för ökumanns sem var undir áhrifum fíkniefna og þá voru teknir allnokkrir ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Athygli vakti hversu margir ökumenn höfðu ekki ökuskírteini meðferðis. Á fimmtudagskvöldið, þegar um 200 ökumenn voru stöðvaðir, hafði t.d. um fjórðungur þeirra skilið ökuskírteinið eftir heima en slíkt kæruleysi kostar viðkomandi 5.000 kr.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra, leggur nú áherslu á aukið sýnilegt eftirlit á og við stofnbrautir  í umdæminu, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar en áðurnefndar aðgerðir eru hluti af því. Með þessu vill lögreglan leggja sitt af mörkum til að íbúar og aðrir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu geti átt ánægjulegar stundir við jólaundirbúning á komandi vikum.

Markmiðið með þessu átaki gegn ölvunarakstri er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Minnt er á viðvörunarorðin Eftir einn ei aki neinn en þau eiga alltaf við. Átakið nær að sjálfsögðu einnig til aksturs undir áhrifum fíkniefna en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar.