18 Apríl 2009 12:00

Rúmlega fimm hundruð ökumenn voru stöðvaðir í Reykjavík á fimmtudagskvöld en aðgerðin var hluti af sérstöku átaki sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haldið úti gegn ölvunar- og fíkniefnaakstri undanfarnar vikur. Þrír þessara ökumanna reyndust ölvaðir og voru þeir handteknir. Tveimur til viðbótar var gert að hætta akstri en þeir voru rétt undir viðmiðunarmörkum. Ökumenn tóku þessum afskiptum almennt mjög vel en öflug sveit lögreglumanna var á vettvangi og því gekk eftirlitið, sem stóð yfir í tvær klukkustundir, að mestu snuðrulaust fyrir sig.

Fyrrnefnt átak er unnið í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra en það kemur til viðbótar því öfluga umferðareftirliti sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu heldur jafnan úti. Hvergi verður slakað á í þeim efnum.

Lögreglan kannaði m.a. ástand ökumanna sem áttu leið um Sæbraut.