29 Nóvember 2004 12:00

Eins og undanfarin ár þegar líða fer að jólum hefur lögreglan í Reykjavík uppi sérstakt átak til að koma í veg fyrir ölvunarakstur. Átakið hófst nú um helgina og voru 560 ökumenn stöðvaðir og ástand þeirra kannað. Í ljós kom að 4 þeirra ökumann sem stöðvaðir voru í átakinu reyndust vera undir áhrifum áfengis, 2 reyndust sviptir ökuleyfi og 3 voru með útrunnin ökuskírteini. Um helgina voru auk þeirra 4 ökumanna sem stöðvaðir voru í átakinu og reyndust ölvaðir 9 ökumenn teknir fyrir ölvun við akstur í Reykjavík.

Lögreglan í Reykjavík vill vekja athygli á því að á næstu vikum er ætlunin að halda þessu átaki áfram og eru ökumenn því hvattir til að virða reglur um að aka ekki eftir að neyslu áfengis nú sem endranær. Reynt verður að hafa aðgerðir með þeim hætti að þær valdi sem minnstum töfum á umferð. Lögreglan hefur staðið fyrir sambærilegum aðgerðum gegn ölvunarakstri undanfarin ár og hefur það sýnt sig að þessar aðgerðir hafi skilað árangri í baráttunni við ölvunarakstur.

Í umferðarlögum nr. 50/1987 segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki sé hann undir áhrifum áfengis. Í reglugerð með umferðarlögum er nánar kveðið á um sektir og refsingar vegna umferðarlagabrota. Meðfylgjandi eru nokkur dæmi um hugsanlegar refsingar vegna ölvunaraksturs.

Taflan miðast við að um fyrsta brot sé að ræða.

Vínandamagn í blóði ‰

Sektir

Svipting

0.50 – 0.60

50.000

2 mán

0.61 – 0.75

50.000

4 mán

0.76 – 0.90

60.000

6 mán

0.91 – 1.10

70.000

8 mán

1.11 – 1.19

80.000

10 mán

1.20 – 1,50

100.000

12 mán

Njótið aðventunnar – Forðist ölvunarakstur