12 Mars 2007 12:00

Átján ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina en helmingur þeirra var stöðvaður á laugardag. Þrettán voru teknir í Reykjavík, þar af níu í miðborginni, tveir í Kópavogi, tveir í Garðabæ og einn í Hafnarfirði. Þetta voru fjórtán karlmenn og fjórar konur. Karlarnir eru flestir á þrítugs- og fertugsaldri en þrír eru undir tvítugu. Þá voru tveir aðrir ökumenn teknir fyrir að aka undir áhrifum lyfja.

Fimmtíu og einn ökumaður var tekinn fyrir hraðakstur um helgina en tæplega helmingur þeirra ók á yfir 100 km hraða. Ökufantarnir voru stöðvaðir víðsvegar um umdæmið og má þar nefna Vesturlandsveg, Hamrahlíð, Reykjanesbraut, Vífilsstaðaveg, Eiðisgranda, Sæbraut og Álftanesveg.

Sextíu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, langflest minniháttar. Eftir eitt þeirra var 19 ára piltur fluttur á slysadeild en bíll hans hafnaði á ljósastaur. Viðkomandi mundi lítið eftir óhappinu en rétt áður en það gerðist var hann að teygja sig eftir tveimur drykkjarglösum í hinu framsætinu. Þau voru full af vökva en úr þeim sullaðist þegar pilturinn þurfti að taka beygju! Þetta er ekki einsdæmi úr umferðinni en undirstrikar að akstur krefst fullrar athygli.