24 Nóvember 2006 12:00

Átján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Engar fregnir bárust af slysum á fólki í þessum óhöppum en í fjórum tilfellum var um afstungur að ræða. Frekar lítið bar á hraðakstri að þessu sinni og fáeinir ökumenn voru stöðvaðir fyrir að spenna ekki beltin eða tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þrír voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi.

Karlmaður á miðjum aldri var tekinn fyrir ölvunarakstur í gærmorgun og í nótt voru tveir piltar um tvítugt teknir fyrir sömu sakir en annar þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Þá var rúmlega þrítug kona tekin fyrir akstur undir áhrifum lyfja í nótt.