13 Janúar 2021 16:16

Að minnsta kosti sex manns hafa þurft að leita aðstoðar á slysadeild eftir að til átaka kom í Borgarholtsskóla í Grafarvogi um hádegisbil í dag, en upplýsingar um meiðsli þeirra liggja ekki fyrir. Rannsókn málsins er annars á frumstigi og því er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu. Tilkynning um átökin barst lögreglu kl. 12.37 og hafði hún töluverðan viðbúnað vegna málsins, en nemendum og starfsfólki Borgarholtsskóla var mjög brugðið eftir atburði dagsins.