27 September 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur síðastliðið ár unnið að mjög viðamikilli rannsókn á stórfelldum fíkniefnabrotum að minnsta kosti átta Íslendinga. Brotin voru framin víða á Norðurlöndunum meðal annars í Danmörku og Noregi. Rannsóknin var framkvæmd í nánu samstarfi við lögreglu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð auk aðstoðar frá Europol. Þá naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu liðsinnis annarra lögregluembætta hér á landi og tollgæslu við rannsókn málsins.

Nú þegar hefur lögregla lagt hald á mikið magn fíkniefna auk þess sem átta Íslendingar hafa verið handteknir í Danmörku og Noregi í tengslum við málið. Flestir hinna handteknu hafa áður komist í kast við lögin hér á landi.

Forræði málsins er nú í höndum dönsku lögreglunnar sem sendi frá sér meðfylgjandi fréttatilkynningu fyrir stuttu og skal beina öllum fyrirspurnum um málið til þeirra.

http://newspublicator.dk/e10/parker/pm/010b7a06e1ba6e1c/mc1132126/view/