14 Apríl 2020 11:52

Í upphafi viljum við hrósa fólki fyrir að hafa í stórum mæli farið að tilmælum um að virða tilmæli um ferðatakmarkanir og er það vel. Lögreglan verður þess vör að mikill metnaður er meðal íbúa og annarra að vinna að því að koma í veg fyrir dreifingu smits og ljóst að mörg fjölskylduboðin hafa verið slegin af þessa páska.   Einhver fjöldi var í sumarbústöðum, einkum í uppsveitum Árnessýslu, en vísbendingar eru um að þeir hafi haldið sig til nokkurs hlés og almennt gætt að sér um að dreifa ekki smiti.   Ljóst er að nú þegar nýgreindum smitum fer fækkandi verður erfiðara að halda haus og passa upp á að fylgja samkomubanni. Staðreyndin er hinsvegar sú að eftir því sem við leggjum harðar að okkur nú styttist sá tími sem við sitjum uppi með þessar takmarkanir.   Við erum öll almannavarnir og þarna þurfum við að leggja hart að okkur að fara að þeim reglum sem um verkefnið eru settar.   Það er til mikils að vinna.

Fjölmargar eftirlitsferðir voru farnar í verslanir og veitingahús til að kanna hvernig unnið væri með reglur um samkomubann. Rætt var við starfsfólk og stjórnendur og almennt er sami metnaður þar og meðal almennings til þess að gera vel.

Aðgerðastjórn almannavarna á Suðurlandi kemur reglulega saman og fer yfir stöðu mála.   Almennt hefur allt starf í kring um þá vinnu gengið vel og ljóst að viðbragðsaðilar allir eru að vinna frábært starf.

Páskahelgin fór almennt vel fram hjá okkur hvað löggæslu varðar.   Þó er ljóst að í einhverjum tilfellum reynir á samkomulag á heimilum á meðan á samkomubanni stendur og viðvaranir um að hætta sé á fleiri málum er varða ofbeldi á heimilum eða öðrum málum er snúa að andlegri heilsu fólks eru á rökum reistar.   Tilefni er til að vekja athygli á tenglum AA samtakanna https://www.aa.is/aa-fundir og hvetja þá sem þurfa til að setja sig í samband við fulltrúa þeirra. Á sama stað er að finna upplýsingar fyrir aðstandendur þeirra sem eru í neyslu og um að gera að nýta sér þessa þjónustu þar.

36 ökumenn eru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku að mánudeginum öðrum í Páskum meðtöldum.   Allt eru þetta aðilar á íslenskri kennitölu og því engin leið að kenna ferðamönnum um þessar tölur.   Einn þessara ökumanna er mældur á 141 km/klst hraða og tveir eru á bilinu 131 til 140 km/klst.   Tveir ökumenn eru kærðir fyrir að nota farasíma án handfrjáls búnaðar.

Þann 11. apríl kom upp eldur í vélarrúmi 7 tonna plastbáts á Höfn en báturinn stóð á landi og var eigandi hans að vinna að lagfæringum á honum.   Hann hóf þegar tilraunir til að slökkva eldinn og fékk aðstoð við að draga hann frá húsi sem hann stóð við. Slökkvilið Hornafjarðar var jafnframt kallað til og slökkti eldinn.   Ekki liggur fyrir niðurstaða um eldsupptök og eru þau til rannsóknar.

6 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.   Öll smávægileg.   Þó valt bifreið á Suðurlandsvegi við Kotströnd þann 12. apríl en ökumaður hennar, sem var einn í bílnum slapp með minniháttar meiðsl. Kona á áttræðisaldri slasaðist þann 6. apríl í uppsveitum Árnessýslu þegar hún rann í hálku.