10 Júní 2016 10:11

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér samkomulag um aukið sýnilegt eftirlit lögreglu í miðborginni í sumar.  Samskonar samkomulag var gert í fyrrasumar og var það mat allra sem að verkefninu komu að eftirlitið hefði skilað tilsettum árangri.

Markmið verkefnisins er að bregðast við auknum straumi ferðamanna í miðborginni, auka öryggi almennings í miðborginni, tryggja betra aðgengi að lögreglu, skemmri viðbragðstíma lögreglu og bætta þjónustu við borgarana. Auk þess að tryggja betur öryggi lögreglumanna í miðborginni, þá sér í lagi að næturlagi um helgar. Það hefur sýnt sig að hátt í helmingur allra ofbeldisbrota á höfuðborgarsvæðinu eiga sér stað þar á þeim tíma.

Skipulag verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að auka sýnilegt eftirlit lögreglu í miðri viku með því að hafa fasta varðpósta alla virka daga í miðborginni. Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér að manna þessa varðpósta með lögreglumönnum eftir sérstöku skipulagi. Eftirlitið fer þannig fram að lögreglumenn eru sýnilegir í miðborginni, hvort sem er með því að leggja lögreglubifreið á áberandi stað eða við göngu- eða hjólaeftirlit.

Einnig er aukið eftirlit frá klukkan 02.00 til 05.00 um helgar (aðfaranótt laugardags og sunnudags) og almenna frídaga. Á því tímabili er markmiðið að hafa tvo lögreglubíla á miðborgarsvæðinu og mun fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra stjórna því að svo verði.