16 Desember 2003 12:00
Þann 13. nóvember s.l. undirrituðu ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn í Kópavogi samkomulag sem stuðlar að auknu eftirliti og sýnilegri löggæslu í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi.
Með tilkomu Neyðarlínunnar (112) og Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar (FML) hefur starfsumhverfi lögreglu breyst mikið. Nánast allar aðstoðarbeiðnir til lögreglu berast í gegnum síma 112 og þaðan til FML, sem síðan úthlutar verkefnum til viðkomandi lögregluliðs, yfirleitt í gegnum fjarskiptakerfi lögreglu. Með þessu hefur álag á hverri lögreglustöð minnkað mikið.
Til að nýta þessa nýju tækni enn betur hafa ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórinn í Kópavogi gert með sér samkomulag um að FML annist alla símsvörun fyrir lögregluna í Kópavogi að næturlagi í miðri viku þegar svo ber undir. Með þessu er þörf á viðveru lögreglumanna á lögreglustöðinni í Kópavogi minnkuð. Hingað til hefur jafnan einn lögreglumaður verið staðsettur á lögreglustöðinni á þessum tímum og þrír lögreglumenn verið í eftirliti á tveimur lögreglubílum. Samkomulagið gerir kleift að ekki verði að jafnaði lögreglumaður bundinn á lögreglustöðinni að nóttu til utan helga frá miðnætti til kl. 07:00 að morgni.
Anddyri lögreglustöðvarinnar verður opið á þessum tímum eftir sem áður. Mjög fátítt er að borgarar leiti á lögreglustöðina að næturlagi í miðri viku með erindi sín. Borgari sem kemur á lögreglustöðina fær samband í gegnum dyrasíma við FML ef lögreglustöðin er mannlaus. Jafnframt hefur verið sett upp öryggismyndavélakerfi sem gerir FML kleift að fylgjast með mannaferðum innan og utan lögreglustöðvarinnar.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að fjölga lögreglumönnum við störf útivið, gera löggæsluna sýnilegri, efla eftirlit og auka þar með öryggi bæjarbúa og eigna þeirra.