23 Október 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við auknu framboði e-taflna en þær hafa ekki verið mjög áberandi hérlendis frá árinu 2001. Töluvert magn e-taflna og MDMA-dufts var haldlagt í svokölluðu Pólstjörnumáli í síðasta mánuði. Það er sterk vísbending um stöðu mála en MDMA-duft er notað í e-töflur.
Þess má geta að um svipað leyti á síðasta ári varaði lögreglan við notkun e-taflna en þá komu upp þrjú, mjög alvarleg tilvik. Um þau var fjallað á lögregluvefnum 6. nóvember 2006. Hér er um að ræða hættulegt efni sem fyllsta ástæða er til að vara við en um skaðsemi e-taflna þarf ekki að fjölyrða. Upplýsingarnar hér að ofan voru kynntar á blaðamannafundi, sem haldinn var á lögreglustöðinni við Hverfisgötu fyrr í dag, en þar voru jafnframt sýndar nokkrar glærur sem má nálgast hér. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður fíkniefnadeildar, og Eiður H. Eiðsson, lögreglufulltrúi forvarna, sátu fundinn fyrir hönd LRH og með þeim var Matthías Halldórsson landlæknir.