10 Desember 2022 15:12

Banaslys varð á Höfðabakka í Reykjavík í nótt en þar var ekið á gangandi vegfaranda. Tilkynning um slysið barst um hálfeittleytið í nótt, en bifreið á leið norður Höfðabakka, nálægt Árbæjarsafni, hafnaði á vegfarandanum, sem var karlmaður á fimmtugsaldri. Hann var fluttur á Landspítalann, en lést þar síðar um nóttina. Lokað var fyrir umferð um Höfðabakka, á milli Bæjarháls og Stekkjarbakka, á meðan unnið var á vettvangi.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.