13 Nóvember 2006 12:00

Að kvöldi sl. laugardags, kl. 22:23, barst lögreglunni tilkynning um umferðarslys á Reykjanesbraut í Molduhrauni í Garðabæ.

Hafði bifreið verið ekið norður Reykjanesbraut og á steypta klossa á mótum vegarins þar sem umferð er beint af nýjum vegarkafla til norðurs, þar sem nú eru tvær akreinar í sömu átt, og yfir á annan vegarkafla þar sem ein akrein er í hvora átt, en þarna standa nú yfir vegarframkvæmdir til tvöföldunar Reykjanesbrautar.

Þrír menn voru í bifreiðinni er slysið átti sér stað, allt erlendir ríkisborgarar, og voru fluttir á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Einn þeirra var úrskurðaður látinn við komu þangað en hinir tveir sluppu með minniháttar meiðsl og voru útskrifaðir að skoðun lokinni.

Þar sem ekki lá ljóst fyrir hver ók bifreiðinni þegar slysið varð, voru þeir tveir sem eftir lifðu handteknir og vistaðir í fangaklefa eftir skoðun á sjúkrahúsi. Þeir voru teknir til skýrslutöku í gær með réttarstöðu sakborninga. Í gærkvöldi voru þeir svo úrskurðaðir í farbann til 30. nóvember næstkomandi af Héraðsdómi Reykjaness að kröfu lögreglustjórans í Hafnarfirði og sleppt úr haldi lögreglu að því loknu. 

Mál þetta er enn í rannsókn og lýtur að aðdraganda og orsökum slyssins, meðal annars að  meintum of hröðum akstri og ölvunarakstri, sem og vegmerkingum á þeim vegarkafla þar sem slysið varð.

Þá snýr rannsókn málsins einnig að því að upplýsa hver þremenninganna ók bifreiðinni á þeim tíma er atvikið átti sér stað.

Þeir er kunna að hafa orðið vitni að slysi þessu eða telja sig hafa upplýsingar er að gagni geta komið við rannsókn málsins, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í Hafnarfirði í síma 525 3300.