16 Ágúst 2006 12:00

Einn lést og tveir slösuðust í hörðum árekstri tveggja bíla norðan við Móa á Kjalarnesi fyrr í dag. Lögreglunni í Reykjavík barst tilkynning um slysið klukkan 12.35 en þegar að var komið var einn látinn. Bílarnir komu úr gagnstæðum áttum en ekki er vitað nánar um tildrög slyssins. Í öðrum var ökumaður einn á ferð en í  hinum voru ökumaður og farþegi. Beita þurfti klippum til að ná öðrum hinna slösuðu út úr bílnum en meiðsli hans eru alvarleg. Ökumaðurinn sem var einn á ferð slasaðist minna en frekari upplýsingar um áverka liggja ekki fyrir.

Vegna slyssins var Vesturlandsvegi lokað og umferð úr borginni er nú beint um Þingvallaveg, Mosfellsheiði, Kjósarskarðsveg og um Hvalfjörð að Hvalfjarðargöngum. Umferð í borgina er beint sömu leið. Búist er við að Vesturlandsvegur verður opnaður fyrir umferð á nýjan leik um þrjúleytið.