20 Ágúst 2006 12:00
Einn lést og tveir liggja slasaðir eftir árekstur tveggja bíla á Vesturlandsvegi við Leirvogstungu á miðnætti í gær. Tildrög slyssins eru þau að ekið var á hross á veginum og við það missti ökumaðurinn stjórn á bílnum sem hafnaði síðan á öðrum bíl sem kom aðvífandi úr gagnstæðri átt.
Hinn látni var farþegi í bíl á suðurleið en ökumaðurinn er mikið slasaður. Beita þurfti klippum til að ná honum út. Tveir aðrir voru í bílnum en þeir voru útskrifaðir eftir skoðun á slysadeild.
Þrír voru í hinum bílnum sem var á norðurleið. Einn þeirra bringubeinsbrotnaði en hinir slösuðust minna.
Vegna slyssins var Vesturlandsvegur lokaður í rúmar þrjár klukkustundir. Á meðan var umferð beint um Kjósarskarðsveg.