25 Nóvember 2008 12:00
Fimmtán manna Zodiac bát með stórum 4 strokka utanborðsmótor var stolið um miðjan september. Báturinn var geymdur í geymsluhúsnæði. Verðmæti hans var talið vera um 2,6 milljónir króna. Í byrjun nóvember var síðan stolið Bombard harðbotna gúmmíbát af afgirtu svæði við Eyjaslóð á Granda. Sá bátur var með stórum fjögurra strokka mótor, stýri og ljósboga. Verðmæti bátsins mun vera um 2 milljónir króna.
Síðastliðinn fimmtudag fannst síðan Zodiac báturinn og búið var að setja á hann stýrið, mótorinn og ljósbogann af Bombard bátnum. Í kjölfarið voru tveir menn handteknir og játuðu þeir að hafa stolið báðum bátunum. Mennirnir höfðu farið á Zodiac bátnum út á Granda þar sem þeir sóttu Bombard bátinn og drógu hann að hafnarsvæði þar sem þeir höfðu aðstöðu.
Mennirnir vísuðu lögreglu á bílskúr þar sem þeir geymdu mótorinn af Zodiac bátnum ásamt fylgihlutum. Bombard báturinn er enn ófundinn. Meðfylgjandi er mynd af samskonar bát.