29 Janúar 2009 12:00

Það er heldur óskemmtileg reynsla að verða bensínlaus á miðri leið þegar farið er á milli staða. Slík tilfelli koma á borð lögreglu af og til en reynt er að greiða úr vanda fólks eins og mögulegt er. Eitt nýjasta dæmið af þessu tagi átti sér stað í Ártúnsbrekkunni á háannatíma, eða mitt í morgunumferðinni. Þar hafði ökutæki staðnæmst með tilheyrandi töfum fyrir þá sem á eftir komu. Lögreglan brást skjótt við og spurði ökumanninn hvað amaði að. Sá sagði að bíllinn væri bensínlaus og því kæmist hann hvergi. Hinn sami sagði jafnframt að honum hefði verið fullljóst að mjög lítið bensín hefði verið á bílnum en hann ákvað samt að reyna að komast í vinnuna. Maðurinn komst reyndar í vinnuna þennan morgun en það var seint og um síðir. Hefði hann sýnt fyrirhyggju og tekið bensín í tíma hefði mátt komast hjá þessum óþægindum sem voru með öllu óþörf. Með trassaskapnum tafði hann einnig fyrir öðrum vegfarendum svo ekki sé nú minnst á slysahættuna. Ekki er hlaupið að því að fjarlægja ökutæki við þessar aðstæður og það getur beinlínis verið lífshættulegt. Því miður eru til fleiri dæmi af þessu tagi en nýverið komu upp sömu aðstæður á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Þar hafði ökutæki stöðvast af sömu ástæðu og ökumaðurinn einnig trassað að fylla á tankinn, vitandi það að bíllinn væri svo gott sem bensínlaus. Í ljósi þessa hvetur lögreglan ökumenn til að sýna meiri ábyrgð og stuðla þannig að eigin öryggi sem og annarra.