23 Apríl 2012 12:00
Mikið er um stöðubrot í Reykjavík en um helgina hafði lögreglan afskipti af fimmtíu ökutækjum vegna þessa, m.a. við ýmsa samkomustaði. Þannig var fjölmörgum bílum t.d. lagt ólöglega í nágrenni og við Skautahöllina og Húsdýragarðinn en lögreglu bárust margar kvartanir vegna þessa. Minnt er á að illa og ólöglega lagðir bílar skapa oft vandræði fyrir gangandi vegfarendur svo ekki sé nú talað um neyðarakstur lögreglu, slökkviliðs og sjúkraliðs þegar hætta er á ferðum. Í Laugardalnum og nágrenni hans eru jafnan næg bílastæði en svo virðist sem margir setji það fyrir sig að leggja örstuttan spöl frá áfangastað og ganga síðan í fáeinar mínútur áður en kemur að því að njóta skemmtunar og/eða útivistar á þessu og raunar ýmsum fleiri svæðum á höfuðborgarsvæðinu.
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en nú er 5000 kr. sekt vegna stöðubrots en gjaldið rennur í Bílastæðasjóð. Sé hins vegar lagt í stæði, sem eru sérmerkt fötluðum, þarf viðkomandi að greiða enn meira, eða 10000 kr.