23 Mars 2007 12:00

Nokkrir bílar skemmdust í leiðindaveðrinu sem gekk yfir landið í gær. Vinnupallar fuku á tvo bíla  í suðurbæ Hafnarfjarðar og á Strandgötu lenti plata á öðru ökutæki. Í Kópavogi hafnaði olíutunna á bíl en á öðrum stöðum í bænum gerði veðrið mönnum líka erfitt fyrir. Sérstaklega í Kórahverfi en þar eru mörg hús í byggingu. Hjálparsveitarmenn komu til aðstoðar og veitti ekki af. Reykvíkingar fóru ekki heldur varhluta af veðrinu en í Breiðholti fauk ruslatunna á bíl og skemmdi hann nokkuð.

Áfram er spáð hvassviðri, ekki síst á morgun, og því ætti fólk að huga að hlutum í kringum hús sín. Fjarlægja það sem laust er eða binda það niður með einhverjum hætti.