27 Júlí 2007 12:00

Þremur bílum var stolið í Reykjavík í gær. Einum var stolið í Breiðholti í gærmorgun en bíllinn fannst svo síðdegis á öðrum stað í borginni. Tveir piltar og stúlka, sem öll eru undir tvítugu, voru handtekin vegna málsins. Þau voru öll í annarlegu ástandi en þríeykið hefur áður komið við sögu hjá lögreglu. Eitthvað hafði bíllinn rispast í meðförum þjófanna og þá saknaði eigandi ökutækisins fartölvu sem var horfin úr bílnum.

Hinum bílunum tveimur var stolið í austurborginni. Í öðrum þeirra hafði eigandi eða umráðamaður skilið kveikjuláslykilinn eftir í bílnum og því átti þjófurinn ekki erfitt um vik.