16 Mars 2018 08:37

Karl á fertugsaldri og kona á þrítugsaldri eru í haldi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á innbroti í verslun í Reykjavík í fyrrinótt og þjófnað á fólksbifreið, en það var ábending árvökuls borgara sem leiddi til handtöku fólksins. Bíllinn er jafnframt fundinn, sem og þýfi úr innbrotinu. Lögreglan tók jafnframt í sína vörslu fleiri muni, sem taldir eru kunna að tengjast öðrum innbrotum. Lögreglan birti myndir af fólksbílnum og ökumanni í gærkvöld og óskaði aðstoðar almennings við að upplýsa málið. Óhætt er að segja að viðbrögðin hafi verið góð og það leiddi til þess sem að framan er rakið, og því vill lögreglan þakka kærlega fyrir veitta aðstoð í málinu.