21 Desember 2006 12:00

Daglega berast lögreglunni í Reykjavík kvartanir vegna ökutækja sem er illa lagt eða jafnvel ólöglega. Í mörgum þessara tilfella er fátt annað hægt að gera en að láta fjarlægja ökutækin svo aðrir geti komist leiðar sinnar.  Í því sambandi má nefna mörg dæmi þess að ökutækjum er lagt fyrir innkeyrslur en það er mikið tillitsleysi. Sama gildir um þá sem leggja í stæði sem eru sérmerkt fötluðum.

Í jólaösinni kann að vera tímabundinn skortur á bílastæðum en það réttlætir ekki fyrrnefnt háttalag. Þá er líka mikilvægt að sýna þolinmæði því á endanum er nú alltaf hægt að finna stæði. Og það sakar ekkert þó bílastæðið sé ekki beint fyrir framan þá verslun eða fyrirtæki sem viðkomandi ætlar í. Fullfrísku fólki er engin vorkunn að ganga stuttan spöl til að sinna erindum sínum.