11 Nóvember 2009 12:00

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Um áttaleytið valt jepplingur á Reykjanesbraut í Kópavogi. Ekki er ljóst hvað olli því en óhappið er hvorki rakið til hálku né hraðaksturs. Meiðsli ökumannsins voru talin minniháttar. Fyrr í morgun var bíl ekið á umferðarljósavita á gatnamótum Sundlaugavegar og Borgartúns. Ökumanninn sakaði ekki en hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

Umferðin í morgun gekk almennt vel og stofnbrautir voru greiðfærar en hálka var víða í hliðargötum. Lögreglan tók hinsvegar eftir því í morgun að margir ökumenn hirtu ekki um að skafa af bílrúðum en fyrir vikið setja hinir sömu sjálfa sig og aðra vegfarendur í hættu með takmörkuðu útsýni. Ljósabúnaði margra ökutækja er líka ábótavant en upp á síðkastið hafa tugir ökumanna verið stöðvaðir vegna þessa. Lögreglan hvetur ökumenn til að hafa þessa hluti í lagi en með því er öryggi allra í umferðinni betur tryggt.