20 Apríl 2020 22:04
Eftir hádegi í gær var hringt í Neyðarlínuna og greint frá svansunga, sem var í miklum vandræðum í Læknum í Hafnarfirði. Óttast var að hann kynni að drukkna og var brugðist hratt við. Okkar fremsti maður í slíkum málum, Guðmundur Fylkisson aðalvarðstjóri, var kallaður á vettvang og tókst honum, með mjög góðri aðstoð nokkurra vegfarenda, að bjarga álftinni frá dauða. Um tíma var útlitið tvísýnt enda flaut svanurinn á hvolfi með haus og vængi á kafi, en fætur upp úr.
Allt fór þó vel að lokum og giftusamleg björgun var staðreynd. Svanurinn, sem gengur undir nafninu Fannar, er líklega um tveggja ára gamall, en til hans hefur sést við gamla Lækjarskóla og greinilegt að eitthvað hefur verið að angra hann. Fannar var færður til aðhlynningar hjá dýravinum í Kjósinni og vonandi verður hann fljótur að braggast.
Það var hún Sjöfn Ýr sem myndaði björgunaraðgerðirnar, en myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi hennar.