3 September 2008 12:00

Í síðustu viku beittu nokkrir útlendingar blekkingum í verslunarmiðstöð í Reykjavík til að ná peningum frá starfsfólki. Þeir voru með nokkra 5 þúsund krónu seðla sem þeir lögðu á afgreiðsluborðið og báðu starfsmann að skipta þeim í 1 þúsund krónu seðla. Rugluðu þeir síðan öllu saman og hættu við að láta skipta fyrir sig. Í öllum ruglingnum tóku þeir hluta af 1 þúsund króna seðlunum og settu með þeim peningum sem þeir komu með. Þannig náðu þeir að svíkja fé út úr nokkrum verslunum.

Í gærdag komu tveir erlendir karlmenn í fyrirtæki og banka á Suðurnesjum. Þar vildu þeir skipta peningaseðlum. Með því að „rugla“ starfsmann bankans tókst þeim að hafa á brott með sér peningaseðla.

Þá gerðu útlendingar einnig tilraun til þess að fá skipt peningaseðlum í matvöruverslun í Garðabæ, en starfsmaðurinn neitaði að skipta við þá enda matvöruverslanir ekki bankar í þeim skilningi. Í öðru tilviki er vitað til þess að aðilar hafi notað þá aðferð að biðja afgreiðslufólk að skipta 2.000 kr seðlum í 5.000 kr. seðla. Þegar þeir höfðu fengið stærri peningamyntina í hendur þá hættu þeir við, en skiluðu aðeins hluta peninganna til baka (handaliprir).

Afgreiðslufólk verslana og banka er beðið að hafa framangreint í huga. Hér gæti verið um sömu eða tengda aðila að ræða í öllum tilvikunum. Vakni grunur um að framangreind lýsing gæti átt við er það vinsamlegast beðið að láta lögregluna vita.