8 Október 2003 12:00

Út er kominn bæklingurinn Börn og netið, sem er samstarfsverkefni Félagsmálasviðs Mosfellsbæjar og Forvarnadeildar lögreglunnar. Í bæklingnum eru upplýsingar fyrir foreldra um netið og spjallrásir, rætt er um hvers vegna börnum finnst netheimurinn spennandi, hvaða hættur geti leynst á netinu og hvað foreldrar geti gert til að koma í veg fyrir að þessi tækni sé notuð til að skaða börnin þeirra. Í bæklingnum má finna öryggisreglur sem foreldrar eru hvattir til að framfylgja og stuðla eiga að öruggari netnotkun barna.

Í tilefni af útgáfu bæklingsins var haldinn fundur fyrir foreldra í Lágafellsskóla fimmtudagskvöldið 2. október þar sem bæklingurinn var kynntur. Þorsteinn Hallgrímsson tæknistjóri Lágafellsskóla sýndi hvernig foreldrar geta rakið ferilskrána í tölvunni og kynnti fyrir þeim búnað (öryggisloka) sem þeir geta sett upp í tölvunni til að koma í veg fyrir að börnin fari inn á ákveðnar síður. Hrönn Þormóðsdóttir verkefnastjóri Barnaheilla var einnig með kynningu en hún fjallaði um það starf Barnaheilla sem snýr að net- og farsímanotkun barna.

Ráðist var í útgáfu bæklingsins vegna ábendinga um að börn í Mosfellsbæ yrðu fyrir hótunum í gegnum netið/spjallrásir. Félagsráðgjafi Félagsmálasviðs Mosfellsbæjar og hverfislögreglumaðurinn í Mosfellsbæ unnu að gerð bæklingsins og kostaði Félagsmálanefnd Mosfellsbæjar útgáfu hans. Bæklingnum var dreift til foreldra barna í 3., 4. og 5. bekk í grunnskólum bæjarins, um 420 bæklingum alls. Foreldrafélög skólanna höfðu umsjón með dreifingu bæklingsins og fengu þau til liðs við sig nemendur í 7. og 10. bekk sem sáu um pökkun og dreifingu á bæklingnum. Dreifingin var hluti af fjáröflun fyrir skólaferðalag nemendanna.

Til að nálgast bæklinginn smelltu hér