25 Júlí 2007 12:00

Sautján ára piltur slapp með skrekkinn þegar vinnubíll sem hann ók hafnaði á umferðarljósum í Kópavogi í gær. Pilturinn hugðist nema staðar við gatnamót en uppgötvaði þá sér til skelfingar að bremsurnar virkuðu ekki. Hann náði að sveigja upp á graseyju en þar hafnaði bíllinn, sem var með kerru í eftirdragi, á umferðarljósum eins og fyrr sagði. Nokkur umferð var um gatnamótin þegar óhappið átti sér stað og því mildi að ekki fór verr.

Það vakti athygli við eftirgrennslan lögreglu að eigandi eða umráðamaður ökutækisins hafði ekki sinnt boðun um endurskoðun en við aðalskoðun í vor voru gerðar athugasemdir við hemlabúnað bílsins. Þá fékk viðkomandi frest til að koma bílnum í lag en af óhappinu að dæma virðist sem hann hafi látið það sitja á hakanum. Skráningarnúmer bílsins voru fjarlægð eftir óhappið í gær.