31 Ágúst 2019 09:00

Fyrir hundrað árum hafði lögreglustjóraembættið í Reykjavík með höndum allskonar verkefni sem áttu ekki neitt sérstaklega skylt við lögreglustörf. Þar má nefna innheimtu og athugun verslunarskýrslna, hlunninda- og aflaskýrslur og skýrslur um ellistyrktarsjóð. Þetta er nú löngu liðin tíð, en á þessum tíma var Erlingur Pálsson sendur til Danmerkur til að kynna sér lögreglustörf og naut hann kennslu í bæði götulögregludeild og rannsóknarlögregludeild lögregluskólans í Kaupmannahöfn, eins og segir í ritinu Lögreglan í Reykjavík frá þriðja áratug síðustu aldar. Erlingur var ytra 1919-1920 og var settur yfirlögregluþjónn í nóvember 1920, tveimur dögum áður en hann varð 25 ára! Tveimur mánuðum síðar fékk hann skipun í embættið, en Erlingur starfaði í lögreglunni til ársins 1966 og var frumkvöðull hjá lögreglunni á mörgum sviðum. Hann kenndi m.a. lengi á öllum lögreglunámskeiðum og því voru áhrif hans mikil. Erlingur var jafnframt einn af stofnendum Lögreglufélags Reykjavíkur og gegndi þar formennsku. Hann var líka íþróttamaður góður og var næstur á eftir Gretti Ásmundssyni til að synda Drangeyjarsund, en það gerði hann árið 1927. Erlingur var alla tíð mikill áhugamaður um sundiðkun, en þess má geta að Sundsamband Íslands var stofnað á skrifstofu hans á lögreglustöðinni við Pósthússtræti í Reykjavík árið 1951 og var Erlingur fyrsti formaður þess. Meðfylgjandi mynd var einmitt tekin af Erlingi á skrifstofu hans í Pósthússtrætinu, en reyndar alllöngu áður en Sundsambandið var stofnað.

Lögreglustöðin við Pósthússtræti.
Erlingur Pálsson á skrifstofu sinni 1934