10 Maí 2012 12:00

Ástin fær fólk til að gera furðulegustu hluti og stundum leggur það sig í hættu hennar vegna. Þannig var um mann sem fór til fundar við gamla kærustu í ónefndri blokk eina nóttina. Vonbiðillinn lét ógert að hringja dyrabjöllunni en klifraði þess í stað upp á svalir íbúðar á þriðju hæð og barði þar í rúðuna. Heimilisfólkið vaknaði við lætin og sá manninn á svölunum. Honum var ekki boðið til stofu enda kannaðist enginn á heimilinu við gömlu kærustuna né hinn óboðna nátthrafn. Maðurinn fór því aftur sömu leið og hann kom og gekk síðan nánast í flasið á lögreglunni. Ekki raskaði hann næturró fleiri manna þessa nótt en engum frekari sögum fer af endurfundum mannsins og gömlu kærustunnar.