26 Október 2010 12:00

Karl á fertugsaldri var handtekinn í Kópavogi í nótt en sá reyndi að stela dekkjum undan bifreið í bænum. Tilkynning um grunsamlegar mannaferðir barst lögreglu á fjórða tímanum en lögreglumenn héldu þegar á vettvang. Hinn óprúttni aðili reyndi að komast undan á tveimur jafnfljótum en var hlaupinn uppi af fótfráum lögreglumönnum. Þjófurinn var ekkert á því að gefast upp og beitti felgulykli til að reyna að forðast handtöku. Það hafði ekkert að segja og var maðurinn yfirbugaður fljótt og örugglega og síðan færður í fangageymslu.