4 September 2006 12:00

Umferðin í Reykjavík var að mestu stóráfallalaus um helgina en samt þurfti lögreglan að hafa afskipti af fjölmörgum ökumönnum. Sá yngsti var 15 ára strákur sem hafði tekið bíl mömmu sinnar í leyfisleysi. Þess má jafnframt geta að pilturinn var ölvaður og ekki bætti það úr skák.

Alls voru níu teknir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir að aka undir áhrifum lyfja en þeir lentu báðir í umferðaróhöppum. Lögreglan stöðvaði för sex annarra ökumanna sem ýmist höfðu aldrei tekið bílpróf eða verið sviptir ökuréttindum. Nærri áttatíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur. Í þeim hópi var 17 ára piltur sem ók á tæplega 150 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 80 km. Viðkomandi á yfir höfði sér 60 þúsund króna sekt og ökuleyfissviptingu.

Þá hélt lögreglan áfram að klippa skrásetningarnúmer af ökutækjum en margir hunsa öll ákvæði um skoðun. Í einhverjum tilvikum voru skrásetningarnúmer klippt af ökutækjum sem voru ótryggð.