13 Júní 2018 20:38
Fjórar lögreglubifreiðar eru skemmdar eftir eftirför í austurborginni um kvöldmatarleytið, en upphaf málsins var að lögreglan hugðist stöðva för ökumanns á númerslausri bifreið á Víkurvegi í Grafarvogi um kl. 19. Sá sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók á brott á miklum hraða. Honum var fylgt eftir af lögreglu og að endingu stöðvaður í Mjóddinni þar sem lögreglubifreiðum var ekið í veg fyrir bíl mannsins. Ökumaðurinn, sem er 17 ára, var einn í bílnum, en hann var í kjölfarið fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Talið er að meiðsli hans séu minni háttar. Ekki er ljóst hvað hinum unga ökumanni gekk til, en hans bíður nú yfirheyrsla hjá lögreglu.
Tvær lögreglubifreiðanna eru óökuhæfar eftir eftirförina og sama á við um bíl piltsins.