20 Desember 2009 12:00
Ökufantur var handtekinn eftir mikla eftirför í Kópavogi í dag. Eftirförin hófst raunar í Hafnarfirði en þar veittu lögreglumenn eftirtekt bíl sem var stolið í Árbæ í nótt. Bílþjófurinn, karl um þrítugt sem hefur ítrekað komið við sögu hjá lögreglu, virti ekki stöðvunarmerki lögreglu og ók Hjallahraun, Bæjarhraun, Flatahraun og Suðurhraun áður en hann fór inn á Reykjanesbrautina og hélt förinni áfram í norðurátt. Þar ók maðurinn bæði á ofsahraða og að hluta til á öfugum vegarhelmingi áður en leið hans lá inn á Arnarnesveg og síðan Smárahvammsveg og Fífuhvammsveg. Enn hélt ökufanturinn áfram og fór um Lindahverfi áður en eftirförinni lauk á mótum Fífuhvamms- og Hlíðardalsvegar þar sem lögreglan ók á bíl ökufantsins og stöðvaði för hans með þeim hætti. Þykir mildi að ekki fór verr en akstur ökufantsins var vítaverður svo ekki sé meira sagt en tveir lögreglumenn leituðu á slysadeild eftir eftirförina. 3-4 lögreglubílar er mismikið skemmdir eftir þetta, einn þó sýnu mest. Sama má segja um bíl ökufantsins en á meðan eftirförinni stóð ók hann á tvo aðra fólksbíla, þar af annan á bílastæði í Smáralind. Víst er að ökufanturinn braut ótal greinar umferðarlaganna með þessum vítaverða akstri og stefndi fjölda vegfarenda í mikla hættu. Ökufanturinn er nú í haldi lögreglu og einnig farþegi sem var með honum í bílnum en um er að ræða konu á þrítugsaldri. Ökufanturinn var í annarlegu ástandi.