24 Janúar 2014 12:00

Um síðustu helgi heimsótti Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tæplega fjörutíu veitinga- og/eða skemmtistaði í miðborginni og kannaði með réttindi dyravarða er þar voru að störfum. Skemmst er frá því að segja að staða mála í þeim efnum var almennt mjög góð. Í nær öllum tilvikum voru dyraverðirnir með tilskilin réttindi, en athugasemdir voru gerðar á tveimur stöðum. Á öðrum þeirra var reyndar enginn dyravarðanna með tilskilin réttindi og var staðnum því lokað.

Á meðal skilyrða sem dyraverðir þurfa að uppfylla er að vera að minnsta kosti 20 ára og hafa ekki gerst sekir um ofbeldis- eða fíkniefnabrot. Nánar er fjallað um hæfi dyravarða í reglugerð nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Umsóknareyðublað um leyfi til að gerast dyravörður er að finna á lögregluvefnum.