3 Júlí 2009 12:00

Sem fyrr fylgist lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með því að búnaður vegna eftirvagna sé í lagi. Þetta á ekki síst við um tjaldvagna, fellihýsi og hjólhýsi og sömuleiðis kerrur af ýmsu tagi. Nú þegar ein mesta ferðahelgi ársins er framundan er rétt að minna á þessi atriði en til að forðast óþægindi er best að yfirfara búnaðinn áður en lagt er af stað. Algengar athugasemdir sem lögreglumenn hafa sett fram snúa m.a. að ljósabúnaði, speglum og tengibúnaði en þessir hlutir sem aðrir verða auðvitað að vera í lagi. Ökumenn eru beðnir að hafa þetta hugfast enda er umferðaröryggi sameiginlegt hagsmunamál allra.

Til viðbótar þessu beinist eftirlit lögreglunnar að sjálfsögðu einnig að því að ökumenn virði ákvæði um hámarkshraða. Að venju verður öflugt eftirlit með hraðakstri en þessa helgina mun lögreglan ennfremur njóta aðstoðar þyrlu við að hafa hendur í hári þeirra sem aka of hratt.