14 Júlí 2010 12:00

Í sumar hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgst sérstaklega með búnaði eftirvagna í umdæminu. Fjölmargir ökumenn hafa verið stöðvaðir vegna þessa en í langflestum tilvikum hefur búnaðurinn verið í góðu lagi. Það er helst að menn gleymi reglum um hliðarspegla og framlengingu þeirra þegar þess er þörf. Einnig eru dæmi um að ökumenn hafi ekki haft tilskilin réttindi en þegar samanlögð heildarþyngd bíls og eftirvagns er meiri en 3.500 kg þarf aukin ökuréttindi.

Lögreglan bendir líka ökumönnum á að huga sérstaklega að skráningu og skoðun tækjanna, þ.m.t. tengibúnaðar, áður en lagt er af stað, ljósabúnaði þeirra og festingum við bifreiðina. Hún minnir ökumenn líka á að huga að þyngd hjólhýsa sinna, tjaldvagna og fellihýsa; að nota þau til að mynda ekki sem flutningstæki útilegu- eða viðlegubúnaðar enda skal þyngd þeirra ekki vera umfram skráningu.