21 Júlí 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík hefur nú sérstakt eftirlit með hjólhýsum, fellihýsum og tjaldvögnum. Eftirvagnar af þessu tagi fylgja fólki á ferðalögum þess um landið en lögreglan leggur áherslu á að allur nauðsynlegur búnaður sé til staðar. Af þeim sökum er fylgst grannt með ökumönnum sem hafa hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna í eftirdragi á leið út úr borginni.
Það sem lögreglan lítur helst eftir er að ljósabúnaður sé í lagi og speglar sömuleiðis. Ef eftirvagn hindrar sýn skal framlengja hliðarspegla bílsins báðum megin svo ökumaðurinn sjái beggja vegna aftur með ökutæki og eftirvagni. Öryggiskeðja þarf líka að vera til staðar ef eftirvagn er ekki búinn hemlum. Þá er minnt á að þegar ekið er með hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagn er hámarkshraði 80 km.
Lögreglumenn á bifhjólum verða staðsettir á bæði Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi og eru ökumenn beðnir um að taka þeim vel. Munum að öryggi í umferðinni er hagsmunamál okkar allra. Þetta eftirlit lögreglunnar mun standa yfir næstu helgar og væntanlega ljúka um verslunarmannahelgina.