23 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík er nú með sérstakt átak í gangi þar sem fylgst er með notkun stefnuljósa. Sérstaklega er eftir því tekið hvort ökumenn gefi stefnuljós við breytta akstursstefnu. Margir virðast ekki hirða um að gefa stefnuljós en slíkt er brot á umferðarlögum. Lögreglan stöðvaði för fjölmarga ökumanna vegna þessa bæði í dag og í gær. Með þessu átaki vill lögreglan vekja ökumenn til umhugsunar en stefnuljósum má líkja við tjáningar- og samskiptatæki í umferðinni.

Ein aðalreglan um stefnuljósagjöf er sú að alltaf skal gefa stefnuljós áður en beygt er á vegamótum. Sömuleiðis skal alltaf gefa stefnuljós áður en skipt er um akrein. Sama gildir þegar ekið er að og frá brún akbrautar.

Þá er það góð regla að gefa alltaf stefnuljós til vinstri þegar ekið er framhjá ytri hring í hringtorgi. Vart þarf að nefna að stefnuljós á líka við þegar ekið er út úr hringtorgi. Að síðustu má nefna að nota skal stefnuljós við leiðbeiningar þegar ökumaður verður þess var að annar vill komast framúr. Sé öllu óhætt skal gefa stefnuljós til hægri en þegar hætta er á ferðum er gefið stefnuljós til vinstri.