21 Júní 2011 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun í sumar halda uppi auknu umferðareftirliti á Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut í tengslum við umferðaröryggisáætlun. Meginmarkmiðið með eftirlitinu er að draga úr ökuhraða en jafnframt að tryggja eins og hægt er að vanbúin ökutæki séu ekki á ferð um þjóðvegi landsins.

Eftirlitið stendur yfir alla daga en þungi þess verður þó yfir helgarnar þegar umferðin og þörfin er mest.

Sérstaklega verður hugað að ljósabúnaði, skráningu og hleðslu ökutækja, tjaldvagna, fellihýsa og hjólhýsa. Einnig verður fylgst með því að hliðarspeglar ökutækja sem draga breiða eftirvagna séu samkvæmt reglum.