18 Janúar 2011 12:00

Tveimur veitingastöðum í miðborginni var lokað aðfaranótt laugardags og öðrum tveimur aðfaranótt sunnudags. Brot veitingastaðanna voru m.a þau að heimila ungmennum yngri en 18 ára dvöl á staðnum eftir kl. 22, veita áfengi til ungmenna undir 20 ára og heimila að áfengi væri borið út af veitingastað. Þá voru í einhverjum tilvikum of margir gestir inn á stöðunum miðað við þá heimild sem til staðar er og dyraverðir starfandi sem ekki voru með heimild lögreglustjóra til starfans. Viðurlög við brotum sem þessum geta varðað sektum og tímabundinni sviptingu heimildar til rekstrar. Mál þessara fjögurra veitingastaða eru í rannsókn.

Eftirlit lögreglu með veitingastöðum hefur aukist og orðið markvissara síðustu misseri og miðar m.a. að fækkun ofbeldisbrota í miðborginni, en fækkun slíkra brota er eitt af grundavallarmarkmiðum embættisins. Í því skyni hefur lögregla einnig verið í góðu samstarfi við borgaryfirvöld sem og fyrirsvarsmenn kráareigenda. Er það von að lögreglu að við aukið eftirlit á veitingastöðum þar sem allir leggjast á eitt við að ná settu marki, megi fækka ofbeldisbrotum í miðborg Reykjavíkur.