5 Nóvember 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Samgöngustofa tóku höndum saman í gær og voru með sérstakt eftirlit með vörubifreiðum við Klettagarða í Reykjavík, en eftirlit af þessu tagi fer sjaldnast fram í þéttbýli með samvinnu þessara stofnana. Markmiðið var að kanna aksturs- og hvíldartíma ökumanna og notkun ökurita, stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, hleðslu, frágang og merkingu farms, og hvort reglum um flutning á hættulegum farmi væri fylgt svokölluðum ADRflutningum. Þá var ástand ökutækjanna einnig kannað sem og ökuréttindi ökumanna.
Verkefnið stóð yfir í 2 klukkustundir og voru 9 vörubifreiðar stöðvaðar. Af þeim var ein bifreið kyrrsett vegna brota á reglum um hæð farms og vegna ófullnægjandi hjólbarða. Þeirri bifreið var jafnframt fylgt til skoðunar af lögreglu þegar farmur hafði verið fjarlægður af bifreiðinni. Einn ökumaður var kærður fyrir að aka með útrunninn ökuréttindi til aksturs vörubifreiðar og var hann því próflaus. Einn ökumaður var kærður fyrir að aka vörubifreið yfir leyfilegri hámarksþyngd, en bifreiðin var um 3.000 kg of þung. Þá uppfyllti einn ökumaður ekki skilyrði um rétta notkun ökurita og hlaut hann því kæru fyrir brotið.
Hvorki lögregla né Samgöngustofa voru nægilega ánægð með útkomu þessa verkefnis, en hlutfall þeirra sem hlutu aðfinnslur var alltof hátt sem segir eftirlitsaðilum að ekki sé vanþörf á frekar samstarfi um eftirlit með þessum málaflokki. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að auka samstarfsverkefni af þessu tagi og herða eftirlit með stórum ökutækjum innan þéttbýlis.
Frá eftirliti lögreglu og Samgöngustofu.