28 Júlí 2016 17:36

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu verður með viðamikið eftirlit um verslunarmannahelgina eins og jafnan áður. Áherslan í sumar hefur m.a. verið á eftirlit með ferðavögnum/eftirvögnum, hraðakstri, notkun öryggisbelta og hættulegum framúrakstri. Það er ánægjulegt að sjaldnast hefur verið ástæða fyrir lögreglu til að kæra fyrir vanbúnað eftirvagna/ferðavagna, en í nokkrum tilvikum hefur ökumönnum verið bent á atriði sem þeir þurfa að laga, t.d. að framlengja hliðarspegla þegar ökutæki draga breiða eftirvagna. Því miður eru líka alltaf einhverjir sem leyfa sér að virða ekki reglur um hámarkshraða og beltaskyldu . Flestar aðfinnslur gátu ökumenn lagað á vettvangi eða ábendingarnar fóru með ferðalöngunum sem gott veganesti. Í flestum tilvikum virðast ferðalangar því huga vel að ástandi ferðavagna/ökutækja og passa að fyllsta öryggis sé gætt. Ekki má heldur gleyma mikilvægi þess að þeir sem eru með ferðavagna/eftirvagna í eftirdragi virði reglur um hámarkshraða, líkt og aðrir ökumenn. Auk aksturs á löglegum hraða er líka nauðsynlegt að ökumenn og farþegar spenni beltin og að sjálfsögðu eiga allir ökumenn að vera allsgáðir. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur alla vegfarendur til þess að sýna þolinmæði, sem er ómissandi í umferðinni, og gæta skal sérstakrar varúðar við framúrakstur. Með ósk um velfarnað í umferðinni.

Jafnframt þessu verður haldið úti eftirliti í hverfum í umdæminu. Það er fátt óskemmtilegra en að koma heim úr ferðalagi og verða þess var að innbrotsþjófar hafi látið greipar sópa um heimilið. Af þeirri ástæðu munu lögreglumenn fylgjast með íbúðarhúsnæði um verslunarmannahelgina eins og kostur er. Lögreglan vill jafnframt hvetja fólk, sem heldur burt af höfuðborgarsvæðinu í lengri eða skemmri tíma, til að ganga tryggilega frá heimilum sínum. Gott ráð er biðja nágranna um að líta eftir húsnæði. Fá þá til að kveikja ljós, fjarlægja póst, leggja í bílastæði o.s. frv. Sömuleiðis er minnt á mikilvægi þess að verðmæti séu ekki skilin eftir í augsýn en þjófar sækjast m.a. eftir fartölvum, myndavélum o.þ.h. hlutum. Þá er rétt að hafa hugfast að GPS-tækjum er oft stolið úr bílum og því nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir þegar ökutæki er yfirgefið.

Lögreglan hvetur líka fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir. Það getur oft skipt miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver embættisins á Hverfisgötu 113-115, Reykjavík, í síma 444-1000. Þá er enn fremur rétt að minna á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þar er hægt að senda henni einkaskilaboð.