13 Mars 2024 15:10

Embættið hefur nýverið ráðist í aukið eftirlit með skotvopnaleyfishöfum og er ákveðið tilraunastarf í gangi til vors með fyrirkomulagið. Fulltrúar leyfaþjónustu hafa heimsótt leyfishafa og kannað ástandið hjá þeim m.t.t. þess hvort vörslum skotvopna og skotfæra sé rétt háttað. Líkt og grunur var um reynist vörslum skotvopna of oft vera ábótavant og virðist það liggja í misskilningi manna varðandi ákvæði vopnalaga um að ekki þurfi skotvopnaskáp viðurkenndan af lögreglu fyrr en við fjórða vopn. Það þýðir hins vegar ekki að þeir sem eiga þrjár byssur megi hafa þær hvar sem er, skotvopn og skotfæri skulu lögum samkvæmt geymast í aðskildum, læstum hirslum – í læstu húsnæði. Þessi misskilningur er þó væntanlega fyrir bí núna, en alþingi samþykkti nýverið breytingar á vopnalögum sem kveða m.a. á um það að öll skotvopn skuli geymd í viðurkenndum byssuskáp.  Meðalhófið hefur verið haft að leiðarljósi í eftirlitinu og leyfishöfum gefinn frestur til að verða sér úti um viðunandi skápa undir skotvopn og skotfæri. Greinilegt er að skotvopnaleyfishafar vilja hafa hlutina í lagi og eru mjög ánægðir að sjá að lögreglan er að sinna þessu mikilvæga eftirliti.