11 Október 2011 12:00

Talsvert var kvartað undan hávaða frá gleðskap í heimahúsum um helgina. Í nokkrum tilvikum var um að ræða eftirlitslaus unglingapartí en í þau mæta stundum mun fleiri gestir en húsráðendur gera ráð fyrir. Svo átti við um helgina og var þá beðið um aðstoð lögreglu við að vísa gestunum út. Það var auðsótt mál en ljóst er að foreldrar þurfa að vera betur á varðbergi í þessum efnum.

Ekki voru þetta einu afskipti lögreglunnar af unglingum þessa helgina því tvær stúlkur, 14 og 16 ára, komust líka í kast við lögin. Báðar tóku þær bíla foreldra sinna traustataki og fóru á rúntinn. Önnur þeirra lenti í umferðaróhappi og var bíllinn nokkuð rispaður eftir. Stúlkuna sakaði hinsvegar ekki og það var auðvitað fyrir mestu.