29 Ágúst 2006 12:00

Fjölmörg umferðaróhöpp urðu í Reykjavík í gær en til allrar hamingju var sáralítið um slys á fólki. Óhjákvæmilega varð þó eignatjón í nokkrum tilfellum og það kemur við pyngjuna. Skýringar á umferðaróhöppum geta verið margar en samt er ekki hægt að líta framhjá því að oft er einbeitingarleysi um að kenna.

Í óhöppum gærdagsins báru ökumenn því m.a. við að þeir hefðu óvart stigið á bensíngjöf þegar átti að hemla. Eins settu einhverjir óvart í bakkgír þegar þeir ætluðu að aka áfram. Sólin var líka sökudólgur í einhverju tilviki og svo mætti áfram telja.

Lögreglan gerir ekki lítið úr þessum skýringum en hvetur alla ökumenn til að sýna aðgát. Eðli málsins samkvæmt á það alltaf við og ekki síst á álagstímum. Eins og flestir vita getur umferðin í Reykjavík verið mjög þung á morgnana og síðdegis og þá er t.d. hætta á aftanákeyrslum.

Því er svo við þetta að bæta að átján ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í gær. Enginn var hins vegar tekinn fyrir ölvunarakstur og það eru mjög góðar fréttir.