30 Desember 2008 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar þess að landsmenn eigi ánægjuleg áramót. Með það í huga er ágætt að minna á þá góðu reglu að ganga hægt um gleðinnar dyr. Um áramót er nefnilega ýmislegt að varast og því birtum við ykkur aftur pistil sem Eggert Ólafur Jónsson, aðalvarðstjóri á svæðisstöðinni á Seltjarnarnesi, skrifaði í fyrra en efni hans á jafnvel við núna eins og þá. Aðalvarðstjórinn beinir orðum sínum til foreldra enda gegna þeir mikilvægasta hlutverkinu þegar börn og unglingar eru annars vegar. Pistillinn er svohljóðandi:

Kæru foreldrar!

Við viljum hvetja ykkur til þess að huga vel að börnum ykkar um áramótin. Það er margt sem ber að varast sem viðkemur áramótunum sjálfum. Það er von okkar að fjölskyldur geti átt sem ánægjulegust áramót saman.

Við viljum benda ykkur á að öll meðferð flugelda er varasöm enda þeir ekki gerðir til þess að taka þá í sundur heldur ber að umgangast þá eins og leiðbeiningar segja til um. Þrátt fyrir að skólayfirvöld, æskulýðssamtök og lögregla hafi unnið saman mikið starf sem miðast að því að ekki þurfi að hafa áhyggjur af unglingum á þessum tímamótum er ábyrgðin foreldranna fyrst og síðast.

Enn og aftur viljum við vara við eftirlitslausum samkvæmum unglinga. Við hvetjum foreldra til að leyfa ekki börnum sínum að gista hjá vini eða vinkonu, a.m.k. ekki nema að hafa samráð við foreldra viðkomandi. Ítrekað hafa unglingar misnotað þessa leið í haust og því nefnum við þetta hér. Orðrómur hefur borist þess efnis að í samkvæmum unglinga fari fram ósæmilegar kynlífsathafnir sem og/eða fíkniefnaneysla. Við hvetjum foreldra til að ræða við og leiðbeina börnum sínum sem og að fylgjast vel með þeim og vita hvar og með hverjum þau eru.