11 Apríl 2014 12:00

Rafmagnsvespu var ekið á 6 ára dreng á gangbraut á Hagamel í Reykjavík í gærmorgun. Drengurinn var á leið í skóla þegar slysið varð, en hann slasaðist nokkuð. Þrettán ára stúlka ók rafmagnsvespunni, en með henni á vespunni var jafnaldra hennar. Stúlkurnar voru lemstraðar eftir slysið, en hvorug þeirra var með hlífðarhjálm.

Vegna slyssins á Hagamel vill lögreglan ítreka að foreldrar og forráðamenn ræði við börn sín um hættur í umferðinni og hvað sé leyfilegt og hvað ekki, en t.a.m. er bannað með öllu að aka  rafmagnsvespum á akbrautum. Því miður virðast sumir ekki gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að stjórna slíku farartæki og því er þetta undirstrikað hér.

Með hækkandi sól er viðbúið að margar rafmagnsvespur verði á ferðinni og eru ökumenn þeirra, líkt og ökumenn annarra farartækja, hvattir til að fara varlega og sýna ávallt aðgæslu og tillitssemi.