30 Ágúst 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík er beðin um að sinna ýmsum málum, bæði stórum og smáum. Dæmi um það er uppákoma á matsölustað í borginni í gær. Þar voru nokkrir gestir ekki tilbúnir að borga uppsett verð eftir að máltíðinni lauk.
Fleiri ámóta mál hafa komið til kasta lögreglunnar í sumar, þar af tvö nýverið. Í öðru fór fimm manna hópur út að borða en þegar átti að borga reikninginn voru allir horfnir á braut nema einn. Sá var ekki borgunarmaður fyrir veitingunum og sat því í súpunni. Hitt dæmið er ekki ósvipað. Þá sat einn veislugesta eftir og hafði sofnað í þokkabót. Hann var vakinn en reyndist þá ekki eiga peninga fyrir matnum.
Af öðrum verkefnum lögreglunnar, sem rata sjaldnast í fjölmiðla, má nefna rifrildi ökumanna um bílastæði. Undanfarna daga hafa tvö slík mál komið upp. Lögreglan reynir að leysa úr slíkum málum af fremsta megni enda geta slíkar deilur undið upp á sig. Þetta kann að hljóma hjákátlega en stundum þarf ekki mikið til að fólk missi stjórn á sér.