26 Maí 2019 09:30
Á vettvangi fésbókarinnar fáum við mikið af skilaboðum frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu og við megum til með að deila einum þeirra með ykkur, en sá sem þau sendi gaf góðfúslega leyfi sitt og gat hlegið, eftir á, að þeim aðstæðum sem þarna kom upp.
„Góðan daginn.
Ég vildi bara láta ykkur vita, ef ske kynni að fengjuð tilkynningu um innbrot í hús við xxxxxxxxxxxxx, að ég húsmóðirin á heimilinu, læsti mig úti og brá á það ráð að skrúfa gluggafestinguna upp með bíllyklinum mínum og klifra inn um gluggann. Ég var svo óheppin að rassinn skorðaðist í glugganum og ég var föst þarna í dágóða stund. Ég hef smá áhyggjur af því að gangandi vegfarendur kunni að hafa séð til mín með rassinn út um gluggann og tilkynnt herlegheitin.
En þetta var ekki það sem það leit út fyrir að vera.
Það má segja að þetta hafi verið árangursríkt innbrot þrátt fyrir að það hafi gengið brösuglega. Ég komst óslösuð frá þessu öllu saman, náði að grípa veskið mitt og láta mig hverfa, allt áður en lögregla mætti á staðinn.“